Fyrirtækið Eilífðarsól var stofnað 19.01. 2017 af Guðrúnu Ingibjörgu Hálfdanardóttur sem er leiðsögumaður með meirapróf, jógakennari og með reynslu af störfum innan ferðaþjónustu og kennslu.

Hún fékk þá flugu í höfuðið árið 2015 að prófa að fara með fólk í jógaferð til Ítalíu – eftir að hafa heillast af fegurðinni sem einkennir héruð nærri ítölsku vötnunum, Garda og Iseo. Þar sló hún líka nokkrar flugur í einu höggi því reynsla af starfi við ferðaskipulagningu á ferðaskrifstofu, leiðsögumennsku, jógakennslu og jafnvel af kennslu líka kom að góðum notum við að skipuleggja prufujógaferð sem farin var í júní 2015.

Síðan hafa fleiri ferðir verið farnar og sumarið 2017 er stefnan tekin á þrjá staði, Iseovatn og Garda á Ítalíu og til Bled vatnsins í Slóveníu. Starfsmannahópar ættu að skoða þann möguleika að taka þátt í jógaferð – fyrsta starfsmannaferð var farin haustið 2016 af kennarahópi í grunnskóla og var ferðin lofuð í hástert eins og segir hér í ummælum Örnu Kristmannsdóttur í Kársnesskóla…”ferðin okkar til Ítalíu var dásamleg. Yndislegur fararstjóri, frábært jóganámskeið og endurnýjandi hugleiðsla. Kærar þakkir fyrir skipulagið. Dagskráin gekk öll framar vonum og skoðunarferðirnar voru æðislegar.  Svona ferð ætti að vera skylda hjá KÍ ‍️og jafnvel gjaldfrjáls fyrir bugaða kennara!”

Þátttakendur fengu ferðina styrkta frá KÍ. Síðan þá hafa fleiri skólahópar komið í kjölfarið og ferðirnar fengið góðar undirtektir.

Á stefnuskrá er einnig að skipuleggja jógaferðir innan Íslands – hugmyndin um jógaferð í endalausri birtu íslenska sumarsins er lokkandi eða undir norðurljósadýrð – hver veit hvað gerist næst?