Ítalía – Iseo vatn

Afslöppun og sveitarró

Helstu upplýsingar

Lengd ferðar

8 dagar / 7 nætur

Tímabil

Vor/sumar/haust

Tegund jóga

Jóga Nidra

Verð

Tilboð fyrir hópa

P

Innifalið

Flug, gisting, morgunverður og kvöldverður þrjú kvöld, dagsferðir til borganna Veróna og Mílanó, ferðir til og frá flugvelli, leiðsögn, göngur og Jóga Nidra námskeið.

Kennarar

Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir
leiðsögumaður og jógakennari

Estrid Þorvaldsdóttir
leiðsögumaður og jógakennari

Um ferðina

Við Iseovatn er dvalið i sveitakyrrð í fjallaþorpi hátt til fjalla og dögum varið í göngur og jóga. Einn daganna er siglt út í fallegu eyjuna Monte Isola þar sem tíminn stendur allt að því kyrr.

Alla morgna verður Jóga Nidra áður en morgunverður hefst. Þessi ferð er upplögð til að losna undan spennu vetrarins og leyfa slökun, ró og núvitund að taka yfir. Við munum fara í gönguferðir í yndislegu nærumhverfi hótelsins sem liggur í forölpum Ítalíu ofan Iseo stöðuvatnsins og skreppum í stuttar dagsferðir til Veróna og út í eyjuna Monte Isola sem liggur í Iseo vatni þar sem er yndislegt að ganga eða hjóla. Síðasta daginn kynnumst við ys og erli Mílanóborgar áður en haldið er á flugvöll utan við Mílanó.

Hápunktar ferðar

Your Title Goes Here

Your content goes here. Edit or remove this text inline or in the module Content settings. You can also style every aspect of this content in the module Design settings and even apply custom CSS to this text in the module Advanced settings.

Dagur 1

Flug frá Keflavík og lent á Malpensa flugvelli. Við tekur rútuferð á hótel sem tekur um tvær klukkustundir. Hótelið er notalegt sveitahótel i eigu fjölskyldu og staðsett hátt uppi í fjalli ofan Iseo vatnsins. Þangað liggur krókóttur vegur sem leiðir okkur gegnum gamalt þorp og þar rétt ofan við liggur hótel Conca Verde. Útsýnið víðast hvar er dásamlegt og kyrrð og fegurð einkennir svæðið.

Dagur 2

Að loknu jóga og morgunverði er létt ganga frá hóteli um skemmtilegan stíg í fjallinu þar sem eru útskornar styttur úr trjábolum gerðar af listamanninum Luigi Zatti. Þar eru ævintýraverur af ýmsu tagi – drekar, birnir og persónur úr ævintýraheimum og því einstakt tækifæri til að nálgast innra barnið í þessari göngu!

Dagur 3

Dagur hefst með jóga morgunverði á látlausa en huggulega hótelinu okkar. Ef vel viðrar getum við setið á veröndinni og notið kyrrðar sveitarinnar. Kannski heyrist bjölluhljómur úr skóginum – þær tilheyra kúnum af bændabýlum í grenndinni. Í nágrenni við hótel Conca Verde er skemmtileg gönguleið að gljúfri með sérkennilegum bergmyndunum sem kallaðar eru Piramides. Stórfengleg flóð hafa mótað umhverfið svo eftir standa strýtur sem minna á verur úr öðrum heimi. Við göngum þangað og njótum þessara undursamlegu náttúru. Hægt er að ganga stíg niður í dalinn með strýtunum og unnt að komast all nærri þeim en staðurinn er verndaður.

Dagur 4

Við hefjum daginn sem fyrr með jóga og morgunverði, kannski við fuglasöng. Þennan daginn ferðumst við að hætti innfæddra og tökum strætó niður að Iseovatni. Þaðan tökum við bát sem siglir um vatnið og að pínulitlu eyjunum tveim, San Paolo og Loreto, áður en við tökum land í stærstu eyjunni, Monte Isola. Þar ætlum við að ganga upp á hæsta tind eyjarinnar í 600 metra hæð sem hefur að geyma kirkju og grafreit helgaðan Maríu mey. Þar uppi ætlum við að eiga kyrrðarstund.
Eyjan er undurfalleg draumaveröld sem er yndisleg að njóta. Gaman er að ganga um þorpin á eyjunni sem eru ekta ítölsk sveitaþorp, og einnig er hægt að leigja hjól sem hjóla má á umhverfis eyjuna eða að hluta. Krafist er skilríkja af leigutaka og gott að hafa það í huga að taka passann með sér. Monte Isola eyja er ekki stór og tekur um klukkustund að hjóla hringinn ef lítið er stoppað á leiðinni. Það er hins vegar um að gera að leyfa sér að drolla og njóta því þarna er yndisfagurt.

Dagur 5

Að loknu morgunjóga og morgunverði verður stefna tekin í göngu upp í fjallið ofan hótelsins. Þar er í byrjun gengin steinum lögð gata sem margir fætur hafa gengið í tímans rás, í mismunandi skóbúnaði og kannski sumir berfættir því gatan sú var lögð í tíð Rómverja. Skammt ofan við hótelið er komið að stað þar sem sannað þykir að fótspor risaeðla sjáist í klettum. Halda má áfram í göngu sem tekur allt að fimm klukkustundum báðar leiðir, fyrir þá sem vilja ná upp á tind og sjá vel yfir vítt og breitt um héraðið. En einnig er hægt að velja skemmri leið og njóta fagurs útsýnis yfir Iseo vatnið.

Dagur 6

Dagurinn hefst með jóga og morgunverði. Síðan tökum við rútu til hinnar fallegu borgar Verona, þar má meðal annars skoða húsið hennar Júlíu og berja augum styttuna af henni í húsagarðinum, en Shakespeare valdi Veróna stað sem sögusvið fyrir sögu hennar og Rómeós. Það er gaman að rölta um þessa fögru borg, um skemmtilegar götur og torg. Þar eru fallegar byggingar og grafhýsi frá tíð ættarvelda á miðöldum, hringleikahús frá tíð Rómverja og kastali og falleg kastalagöng við ána Adige sem hringar sig um elsta hluta borgarinnar. Hringleikahúsið í Veróna er geysistórt og rúmar um 20.000 manns í sæti. Þar eru að sumarlagi haldnir tónleikar og óperur – kannski sjáum við þar leikmuni úr Aidu eða Carmen?

Dagur 7

Að venju hefst dagurinn með jóga, hugleiðslu og morgunverði og síðan er dagurinn þinn! Frjáls dagur til að njóta nákvæmlega eins og þú vilt hafa hann.

Dagur 8

Að lokinni okkar daglegu morgunrútínu kveðjum við Hótel Conca Verde og ökum til Mílanó – sem er með fallegan miðbæ, ægifagra dómkirkju og kastala og kastalagarð, og fallegar verslunargötur nærri dómkirkjunni, þar á meðal er Galleria Vittorio Emanuele sem er yfirbyggð verslanamiðstöð úr gleri og stáli. Svo er um að gera að rölta um, ganga götuna frá kastala til dómkirkju, skoða dómkirkjuna að innan og jafnvel með að fara upp á þak á þessari einstökuk byggingu sem mörg hundruð styttur prýða. Og auðvitað líta augum Scala óperuhúsið og Leonardo da Vinci styttuna þar nærri svo eitthvað sé nefnt. Áhugafólk um tísku tekur líka göngu um tískuþríhyrninginn þar sem lokkandi verslanagluggar bíða í götum eins og Via Montenapoleone, Via della Spiga, Via Sant’Andrea og Via Manzoni.

Að kvöldi förum við í rútuna sem tekur okkur út á Malpensaflugvöll. Þaðan eigum við flug og komum heim endurnærð eftir dásamlega dvöl.

Algengustu spurningarnar

Your Title Goes Here

Your content goes here. Edit or remove this text inline or in the module Content settings. You can also style every aspect of this content in the module Design settings and even apply custom CSS to this text in the module Advanced settings.

Þarf ég að vera liðug/ur til að vera með í jóga?

Nei, svo sannarlega ekki. Í ferðunum er ýmist leitt kundalini jóga eða jóga nidra. Í kundalini jóga eru stöður og æfingar aðlagaðar að þátttakendum og ef þarf er hægt að gera margar æfinganna sitjandi á stól, fyrir þá sem líkar illa að sitja í jógastöðu á dýnu. Viðkomandi æfingar hafa alveg jafn mikil áhrif hvort sem þær eru framkvæmdar sitjandi á stól eða á jógadýnu.
Í jóga nidra eru þátttakendur leiddir í djúpa slökun þar sem mestmegnis er hvílt í liggjandi stöðu og líkamlegt ástand eða hreyfifærni hamlar engum að taka þátt í því.

Hvernig jóga er kennt?

Við kennum ýmist kundalini jóga eða jóga nidra. Í kundalini jóga er tíminn samsettur af upphitun, röð af jógaæfingum, hugleiðslu og slökun. Með iðkun kundalini jóga flæðir lífsorkan okkar og eykur og jafnar streymi milli orkustöðva. Við fáum meira jafnvægi í starfsemi líkamans, þar með talið milli heilahvela og mikil áhersla er á örvun innkirtlakerfisins sem er svo mikilvægt heilbrigði okkar. Við þjálfum andlegan og líkamlegan styrk með líkamlegum æfingum og öndunaræfingum sem hreinsa og auka flæði orkunnar, undirstöðu heilbrigðis. Hugleiðslan í lok tímans færir okkur ró sem og andlegan styrk, og úrvinnslu úr því sem kann að valda okkur spennu og streitu.

Í jóga nidra er leidd slökun þar sem hvílt er í liggjandi stöðu og æfingar eru gerðar tengdar meðvitund um líkama og öndun sem miða að því að ná meiri ró og dýpri slökun. Í dýpstu slökun er komið inn í ástand þar sem heilun og friðsæld ríkir. Mörg okkar þekkja það ástand þegar hugurinn heldur okkur eins og í spennitreyju með sífelldum hugsunum en í dýpstu slökun losnum við þaðan. Einnig getur þar farið fram hreinsun alveg niður í undivitund, oft án þess að við vitum af því. Jóga nidra hentar vel þeim sem eru að fást við kvíða, streitu og kulnun.

Mér finnst erfitt að sitja í jógastellingu - get ég tekið þátt?

Í jóga nidra eru þátttakendur leiddir í djúpa slökun þar sem mestmegnis er hvílt í liggjandi stöðu og því geta allir lagt stund á þetta jóga.
Í kundalini jóga eru stöður og æfingar aðlagaðar að þátttakendum og ef þarf, er hægt að gera margar æfinganna sitjandi á stól. Viðkomandi æfingar hafa alveg jafn mikil áhrif hvort sem þær eru framkvæmdar sitjandi á stól eða á jógadýnu.

Fá starfsmannahópar styrki frá sínu félagi fyrir ferðinni?

Mörg stéttarfélög veita styrki fyrir ferðum eins og þeim sem Eilífðarsól stendur fyrir. Undanfarin ár hafa hópar starfsmanna í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu farið í jógaferðir og lýst ánægju sinni með þær svo vitnað sé í ein ummælin hér á síðunni … "Ferðin okkar til Ítalíu var dásamleg. Yndislegur fararstjóri, frábært jóganámskeið og endurnýjandi hugleiðsla. Kærar þakkir fyrir skipulagið. Dagskráin gekk öll framar vonum og skoðunarferðirnar voru æðislegar. Svona ferð ætti að vera skylda hjá KÍ ‍️og jafnvel gjaldfrjáls fyrir bugaða kennara!"

Kynntu þér málið hjá þínu stéttarfélagi eða sendu línu til okkar og við göngum í málið.

Eru ferðirnar ykkar bara fyrir konur?

Nei, alls ekki. Margir karlmenn hafa tekið þátt í starfsmannahópaferðum með okkur og notið þeirra jafn vel og konur. Karlmenn þurfa engu síður en konur að læra að slaka á og takast á við streitu.

Henta þessar ferðir einstaklingum?

Já, í ferðunum kynnast þátttakendur mjög vel og oft verða til vináttusambönd sem vara áfram og sumir hópar hittast áfram eftir ferðina eða halda sambandi sem segir nokkuð um þá góðu stemmingu sem fylgir þessum ferðum.

Umsagnir

Mæli heilshugar með

"Ég fór í júní í svona jógaferð sem var algjörlega dásamleg. Kúndalíni jóga á morgnana og hugleiðsla á kvöldin. Fínt lítið fjölskylduhótel og frábær ítalskur matur. Guðrún Ingibjörg jógakennari og ferðafélagarnir allir sem einn hið besta fólk. Mæli heilshugar með svona jógafrísferð."

Frábær ferð

"Alveg frábær ferð, mæli með þessu. Yndislegur farastjóri, skemmtilegir ferðafélagar, og unaðslegt umhverfi. "

Skylduferð

"Ferðin okkar til Ítalíu var dásamleg. Yndislegur fararstjóri, frábært jóganámskeið og endurnýjandi hugleiðsla. Kærar þakkir fyrir skipulagið. Dagskráin gekk öll framar vonum og skoðunarferðirnar voru æðislegar. Svona ferð ætti að vera skylda hjá KÍ ‍️og jafnvel gjaldfrjáls fyrir bugaða kennara!"

Besta sem ég hef gert fyrir mig ❤

Fór í jógaferð til Ítalíu með Guðrúnu og Sigríði Huldu í september sl. Þessi ferð er alveg ógleymanleg, sá auglýsinguna og bókaði mig og sá sko ekki eftir því. Það er nauðsynlegt að kúpla sig frá öllu, hugsa um elsku sig -kynnast frábærum konum alstaðar af landinu komandi úr alskonar aðstæðum. Jógað-hugleiðslan-sjálfsræktin þetta var magnað . Mæli með þessu 100% og langar aftur. Nýti mér fullt af því sem ég lærði og lærði líka fullt um sjálfa mig. Þær tvær eru snillingar.

- Kolbrún Stefánsdóttir

Vel heppnuð ferð

Vel heppnuð ferð. Hjólaferðirnar hápunkturinn.

- Ingvar Jónsson

Gaman að koma til Salo

Lítill og fallegur bær. Stutt í allar áttir. Fórum til Verona í dagsferð sem var mjög skemmtilegt. Einnig var kvöldið á vínekrunni ógleymanlegt.

- Kim Juncker Nielsen

Jógatímarnir komu á óvart

Frábært að blanda saman hreyfingu og slökun. Jógatímarnir komu á óvart. Frábært umhverfi til fara í hjólaferðir.

- Gauti Marinósson

Góða fararstjórn

Frábær ferð þar sem allt var gert til að láta okkur líða vel. Góð fararstjórn.

- Arnar Halldórsson

Fallegur staður

Fallegur staður, fallegt hótel. Jógað og hjólaferðirnar voru frábærar. Maturinnn var líka frábær.

- Jóhann Gunnar Einarsso

Hafa samband