Sardinía

Skínandi tærar strendur og spennandi menning

Helstu upplýsingar

Lengd ferðar

8 dagar / 7 nætur

Tímabil

Vor / Sumar

Tegund jóga

Kundalini jóga

Verð

Tilboð fyrir hópa

P

Innifalið

Dvöl á fjögurra stjörnu hóteli með morgunverði í bænum
Alghero á Sardiníu, námskeið í jóga og hugleiðslu, dagsferðir í rútu með leiðsögn til fjögurra staða á eyjunni, ferðir til og frá flugvelli.
Flug er ekki innifalið í verði ferðar en mælt er með flugi með Icelandair til Rómar og flugi áfram til Alghero með Aeroitalia.

Kennarar

Estrid Þorvaldsdóttir
leiðsögumaður og jógakennari

Stefano Chiarelli
talnaspekingur, leiðsögn á Sardiníu

Um ferðina

Við iðkum jóga og hugleiðslu að morgni og á eftirmiðdögum eftir því sem dagskráin leyfir. Dvalið er í Alghero bæ sem liggur við strönd og býr yfir frábæru útsýni þar sem tilkomumiklir höfðar blasa við handan flóans.

Gamli bærinn í Alghero liggur innan fornra virkisveggja með varðturnum sem voru byggðir af Katalóníumönnum á 16. öld. Við eigum kost á dagsferðum að skoða undurfagran dropasteinshelli, Neptúnusarhellinn; heimsækjum kristaltæra strönd Is Arutas, og skoðum leyndardómsfullt brunnhof þar nærri. Sardinía hefur verið byggð frá forsögulegum tímum og til marks um það má finna steinbústaði nærri Alghero frá tíma Nuragi menningar.

Við skoðum einnig fleiri staði sem vitna um líf á tíma steinaldar, járnaldar og bronsaldar.

Hápunktar ferðar

 

  • Alghero bærinn
  • Neptúnusar dropasteinshellirinn
  • Kristallaströndin, Is Arutas
  • Risarnir í Monte Prama
  • Santa Christina, brunnurinn helgi
  • Nuraghi minjarnar
Your Title Goes Here

Your content goes here. Edit or remove this text inline or in the module Content settings. You can also style every aspect of this content in the module Design settings and even apply custom CSS to this text in the module Advanced settings.

Dagur 1 - Ferðadagur

Mælt er með flugi með Icelandair til Rómar og flugi áfram með Aeroitalia til Alghero flugvallar. Ekið með rútu til hótels í Alghero.

Dagur 2 - Kynnumst hinum spennandi og margslungna bæ - Alghero

Við hefjum daginn á jóga og morgunverði og förum í göngu um Alghero þennan heillandi bæ, ekki síst vegna gamla hlutans innan fornra virkisveggja með varðturnum sem voru byggðir af Katalóníumönnum á 16. öld. Margir íbúar tala enn mállýsku frá þeim tíma og ýmissa áhrifa gætir í byggingum sem minna á Katalóníu. Hægt er að fara gönguleið um bæinn með ströndinni sem er afar falleg um sólsetursbil.

Við förum um göngugötur gamla bæjarins sem hefur líflegt andrúmsloft og röltum meðal verslana, kaffihúsa, bara og veitingastaða. Áhugaverð saga leynist í vel varðveittum gömlum byggingum eins og 16. aldar höllinni, Palazzo d’Albis og dómkirkjunni með sínum sérstaka blandaða byggingarstíl.

Sé vilji til að fleygja sér í sólbað þá má njóta þess á hvítri sandströnd Spiaggia del Lido di Alghero sem liggur frá höfn bæjarins og teygir sig fimm kílómetra til norðurs. Að auki má finna nokkrar fleiri litlar strendur við bæinn.

Dagur 3 - Hellir Neptúnusar

Við hefjum daginn á jóga og morgunverði. Í boði er að skoða Neptúnusar hellinn sem er á tanganum á móti Alghero. Tekinn er bátur frá höfninni í bænum og ferðin tekur um 45 mínútur. Hellirinn er einn af þekktari stöðum í þessum hluta Sardiníu og í fylgd leiðsögumanns er gengið á milli hvelfinga. Þetta einstaka sköpunarverk náttúru minnir oft á skúlptúra og dómkirkjuhvelfingar, gert af vatnsdropum sem fallið hafa í aldanna rás og mótað dropasteina úr kalksteini í ýmsum litum og lögun. Hvelfingar hellisins eru upplýstar að hluta sem skapar töfrandi sýningu.

Ferðin er valfrjáls og aðgangur í bát og helli ekki innifalinn í heildarverði ferðarinnar.

Dagur 4 - Njóttu dagsins

Morgunjóga og morgunverður. Að því loknu er dagurinn þinn hvort sem það er í göngu um bæinn, sólbaði á strönd, slökun við hótelið eða hverju sem hugurinn girnist.

Dagur 5 - Hvíta ströndin, Is Arutas og hinn heilagi brunnur Santa Christina

Að loknu morgunjóga og morgunverði ökum við fagra strandleið til bæjarins Cabras þar sem við heimsækjum fornleifasafnið, staðsett við bakka víðáttumikils lóns. Hér gefst kostur á að gægjast inn í forsögulega tíma og að kynnast hinni fornu Tharros, borg sem stofnuð var af Fönikíumönnum og blómleg á tímum Púnverja og Rómverja. Nýjasti hluti safnsins var opnaður árið 2014, tileinkaður risunum í Monte Prama. Það eru hlutar af styttum sem fundust í jörðu nærri fjallinu Prama er bændur plægðu jörð. Sjá má þessar styttur samsettar, hæð þeirra er frá 2 til 2,5 metrum og má velta fyrir sér hvaða tilgangi þær þjónuðu en það er fornleifafræðingum enn ráðgáta.

Frá safninu höldum við til Is Arutas sem er einstaklega töfrandi sandströnd þakin fíngerðum og ávölum kvartskornum í hvítum, bleikum og grænum tónum í glitrandi víðáttu. Hér er veisla fyrir skilningarvitin – við sökkvum okkur niður í tæran sjó sem á að líta er smaragðsgrænn, grænblár eða ljósblár. Is Arutas er eiginlega ómissandi upplifun á ferð um Sardiníu og oft á lista yfir fegurstu strendur jarðar.

Eftir að hafa notið strandar höldum við til hins Helga brunns heilagrar Cristinu, Pozzo Sacro di Santa Cristina sem er eins konar hof byggt yfir brunn og undraverð byggingarlist. Það er byggt af ferningslaga steinum og fylgir fullkomlega lögmálum rúmfræði svo halda mætti að það væri byggt á nútíma.

Til að ganga að brunninum eru gengnar tröppur niður sem umluktar eru steinveggjum. Á haust- og vorjafndægum lýsir sólin algerlega upp botn brunnsins svo geislar sólar flæða niður líkt þeir snerti vatnið. Við þær aðstæður fylgja tveir skuggar hverjum þeim sem gengur síðustu tröppurnar; einum skugga er varpað út í vatnið, hinn sígur niður úr hvolfinu. Fyrirbærið vekur mikla undrun hjá þeim sem upplifa það.

Aðgangseyri greiðir hver fyrir sig í bæði söfnin.

Dagur 6 - Dagurinn er þinn

Morgunjóga, morgunverður. Og dagurinn er þinn!

Dagur 7 - Menning fornra alda og heimsókn á nútíma vínbúgarð

Að loknu morgunjóga og morgunverði rýnum við inn í sögu svæðisins og heimsækjum Necropolis Anghelu Ruju, grafhýsi sem uppgötvuðust fyrir tilviljun árið 1903. Við gröft grunns að húsi á vínbúgarðinum Sella & Mosca fundust minjar í jörðu og í kjölfar þess fóru fram fornleifauppgreftir á staðnum sem drógu fram í dagsljós einn stærsta forsögulega kirkjugarð Sardiníu. Grafirnar voru höggnar í mjúkan sandstein og tilheyra mismunandi menningarheimum frá síðasta tíma steinaldar fram á bronsöld.

Athyglisverð er virðing fyrir hinum látnu sem blandast virðingu fyrir náttúrunni sem jafnvel í dag lifir enn með íbúum eyjarinnar. Fyrir augu ber lágmyndir og útskurðarmyndir á veggjum sem sýna dularfull tákn hinna fornu trúarbragða nýsteinaldar.

Arkitektúr þessara eilífu vistarvera er oft skreyttur atriðum sem voru innblásin af heimilum lifandi fólks eins og tröppum og súlum. Grafirnar líta sumar út eins og lítil hús sem höggvin voru í móðurkvið móður jarðar. Hinum dánu fylgdu hlutir sem voru þeim gagnlegir og kærir í lífinu, skraut úr steinum og skeljum, vasar og stein- eða bronsáhöld og kvenkyns skurðgoð.

Við fáum okkur hádegismat á vínbúgarðinum Sella & Mosca, sem framleiðir mikið úrval af vínum, en býður einnig vínsmökkun og er almennt talinn virtasti vínframleiðandi Sardiníu. Rekstur hófst árið 1899 og búgarðinum tilheyra 550 hektarar af vínekrum. Hundrað ára saga í víngerð hefur sópað til sín óteljandi innlendum og alþjóðlegum verðlaunum.

Síðdegis heimsækjum við fornleifasvæðið Nuraghe Palmavera sem hefur verið aldursgreint aftur til 15.-14. aldar fyrir Krist. Það samanstendur af nokkrum turnum sem eru tengdir saman, en Nuraghe Palmavera og nærliggjandi þorp voru byggð í ýmsum áföngum á bronsöld og járnöld.

Aðgangseyri greiðir hver fyrir sig í söfn og hádegisverð á vínbúgarði.

Dagur 8 - Ferðalag heim

Við kveðjum Alghero og höldum til flugvallarins. 

Algengustu spurningarnar

Your Title Goes Here

Your content goes here. Edit or remove this text inline or in the module Content settings. You can also style every aspect of this content in the module Design settings and even apply custom CSS to this text in the module Advanced settings.

Þarf ég að vera liðug/ur til að vera með í jóga?

Nei, svo sannarlega ekki. Í ferðunum er ýmist leitt kundalini jóga eða jóga nidra. Í kundalini jóga eru stöður og æfingar aðlagaðar að þátttakendum og ef þarf er hægt að gera margar æfinganna sitjandi á stól, fyrir þá sem líkar illa að sitja í jógastöðu á dýnu. Viðkomandi æfingar hafa alveg jafn mikil áhrif hvort sem þær eru framkvæmdar sitjandi á stól eða á jógadýnu.
Í jóga nidra eru þátttakendur leiddir í djúpa slökun þar sem mestmegnis er hvílt í liggjandi stöðu og líkamlegt ástand eða hreyfifærni hamlar engum að taka þátt í því.

Hvernig jóga er kennt?

Við kennum ýmist kundalini jóga eða jóga nidra. Í kundalini jóga er tíminn samsettur af upphitun, röð af jógaæfingum, hugleiðslu og slökun. Með iðkun kundalini jóga flæðir lífsorkan okkar og eykur og jafnar streymi milli orkustöðva. Við fáum meira jafnvægi í starfsemi líkamans, þar með talið milli heilahvela og mikil áhersla er á örvun innkirtlakerfisins sem er svo mikilvægt heilbrigði okkar. Við þjálfum andlegan og líkamlegan styrk með líkamlegum æfingum og öndunaræfingum sem hreinsa og auka flæði orkunnar, undirstöðu heilbrigðis. Hugleiðslan í lok tímans færir okkur ró sem og andlegan styrk, og úrvinnslu úr því sem kann að valda okkur spennu og streitu.

Í jóga nidra er leidd slökun þar sem hvílt er í liggjandi stöðu og æfingar eru gerðar tengdar meðvitund um líkama og öndun sem miða að því að ná meiri ró og dýpri slökun. Í dýpstu slökun er komið inn í ástand þar sem heilun og friðsæld ríkir. Mörg okkar þekkja það ástand þegar hugurinn heldur okkur eins og í spennitreyju með sífelldum hugsunum en í dýpstu slökun losnum við þaðan. Einnig getur þar farið fram hreinsun alveg niður í undivitund, oft án þess að við vitum af því. Jóga nidra hentar vel þeim sem eru að fást við kvíða, streitu og kulnun.

Mér finnst erfitt að sitja í jógastellingu - get ég tekið þátt?

Í jóga nidra eru þátttakendur leiddir í djúpa slökun þar sem mestmegnis er hvílt í liggjandi stöðu og því geta allir lagt stund á þetta jóga.
Í kundalini jóga eru stöður og æfingar aðlagaðar að þátttakendum og ef þarf, er hægt að gera margar æfinganna sitjandi á stól. Viðkomandi æfingar hafa alveg jafn mikil áhrif hvort sem þær eru framkvæmdar sitjandi á stól eða á jógadýnu.

Fá starfsmannahópar styrki frá sínu félagi fyrir ferðinni?

Mörg stéttarfélög veita styrki fyrir ferðum eins og þeim sem Eilífðarsól stendur fyrir. Undanfarin ár hafa hópar starfsmanna í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu farið í jógaferðir og lýst ánægju sinni með þær svo vitnað sé í ein ummælin hér á síðunni … "Ferðin okkar til Ítalíu var dásamleg. Yndislegur fararstjóri, frábært jóganámskeið og endurnýjandi hugleiðsla. Kærar þakkir fyrir skipulagið. Dagskráin gekk öll framar vonum og skoðunarferðirnar voru æðislegar. Svona ferð ætti að vera skylda hjá KÍ ‍️og jafnvel gjaldfrjáls fyrir bugaða kennara!"

Kynntu þér málið hjá þínu stéttarfélagi eða sendu línu til okkar og við göngum í málið.

Eru ferðirnar ykkar bara fyrir konur?

Nei, alls ekki. Margir karlmenn hafa tekið þátt í starfsmannahópaferðum með okkur og notið þeirra jafn vel og konur. Karlmenn þurfa engu síður en konur að læra að slaka á og takast á við streitu.

Henta þessar ferðir einstaklingum?

Já, í ferðunum kynnast þátttakendur mjög vel og oft verða til vináttusambönd sem vara áfram og sumir hópar hittast áfram eftir ferðina eða halda sambandi sem segir nokkuð um þá góðu stemmingu sem fylgir þessum ferðum.

Umsagnir

Mæli heilshugar með

"Ég fór í júní í svona jógaferð sem var algjörlega dásamleg. Kúndalíni jóga á morgnana og hugleiðsla á kvöldin. Fínt lítið fjölskylduhótel og frábær ítalskur matur. Guðrún Ingibjörg jógakennari og ferðafélagarnir allir sem einn hið besta fólk. Mæli heilshugar með svona jógafrísferð."

Frábær ferð

"Alveg frábær ferð, mæli með þessu. Yndislegur farastjóri, skemmtilegir ferðafélagar, og unaðslegt umhverfi. "

Skylduferð

"Ferðin okkar til Ítalíu var dásamleg. Yndislegur fararstjóri, frábært jóganámskeið og endurnýjandi hugleiðsla. Kærar þakkir fyrir skipulagið. Dagskráin gekk öll framar vonum og skoðunarferðirnar voru æðislegar. Svona ferð ætti að vera skylda hjá KÍ ‍️og jafnvel gjaldfrjáls fyrir bugaða kennara!"

Besta sem ég hef gert fyrir mig ❤

Fór í jógaferð til Ítalíu með Guðrúnu og Sigríði Huldu í september sl. Þessi ferð er alveg ógleymanleg, sá auglýsinguna og bókaði mig og sá sko ekki eftir því. Það er nauðsynlegt að kúpla sig frá öllu, hugsa um elsku sig -kynnast frábærum konum alstaðar af landinu komandi úr alskonar aðstæðum. Jógað-hugleiðslan-sjálfsræktin þetta var magnað . Mæli með þessu 100% og langar aftur. Nýti mér fullt af því sem ég lærði og lærði líka fullt um sjálfa mig. Þær tvær eru snillingar.

- Kolbrún Stefánsdóttir

Vel heppnuð ferð

Vel heppnuð ferð. Hjólaferðirnar hápunkturinn.

- Ingvar Jónsson

Gaman að koma til Salo

Lítill og fallegur bær. Stutt í allar áttir. Fórum til Verona í dagsferð sem var mjög skemmtilegt. Einnig var kvöldið á vínekrunni ógleymanlegt.

- Kim Juncker Nielsen

Jógatímarnir komu á óvart

Frábært að blanda saman hreyfingu og slökun. Jógatímarnir komu á óvart. Frábært umhverfi til fara í hjólaferðir.

- Gauti Marinósson

Góða fararstjórn

Frábær ferð þar sem allt var gert til að láta okkur líða vel. Góð fararstjórn.

- Arnar Halldórsson

Fallegur staður

Fallegur staður, fallegt hótel. Jógað og hjólaferðirnar voru frábærar. Maturinnn var líka frábær.

- Jóhann Gunnar Einarsso

Hafa samband