Eyjarnar tvær í Iseovatni og Gardavatni

Undurfagrar eyjar tvær - Monte Isola og Isola del Garda

Blogg | Ferðirnar okkar | Gardavatn | Iseo Vatn | Ítalía

Monte Isola

Bæði vötnin, Garda og Iseo státa af eyjum í vatninu sem hægt er að heimsækja. Í Iseovatni er Monte Isola eyjan, rúmir fjórir ferkílómetrar að stærð, með gröf Madonnunnar á hæsta toppi sem nær 900 metrum yfir sjávarmál. Íbúar á eyjunni allri eru um 1800 og búa í litlum þorpum sem raða sér með strönd eyjarinnar svo þarna er friðsamlegt mannlíf. Hægt er að leigja hjól og hjóla kringum eyjuna sem er mjög skemmtilegt og víða fagurt útsýni. Það tekur um klukkustund en lengur ef stoppað er víða á leiðinni. Einnig má taka litla strætóinn sem gengur yfir sumarið og fram á haust. Sé vilji til að fara upp á topp eyjarinnar má taka strætó þangað en gangan upp er talsvert krefjandi en þess virði því uppi er frábært 360 gráðu útsýni, og tilvalinn nestis- og hugleiðslustaður.

Skoðunarvert á eyjunni fyrir unnendur listasögu eru merkar kirkjur sem byggðar voru á 15.-17. öld, margar prýddar freskum og styttum, til dæmis kirkjan S. Michele í Peschiera Maraglio þorpinu, vígð um miðja 17. öld, í barokkstíl, með freskuverkum á veggjum og í lofti. Og virkið Martinego – með aðgengi frá þorpinu Menzino, byggt á 15. öld. Andrúmsloftið á þessari litlu eyju er ljúft og gaman að bara vera til, hjóla um og una sér í einhverju þorpanna.

Monte Isola í tímans rás

Nafn eyjarinnar má finna á nokkrum stöðum á spjöldum sögunnar. Í tíð Rómverja, árið 905 var eyjan skráð eign klaustursins í Brescia. Fjölskyldan Oldofredi sem réð yfir Iseosvæðinu byggði svo tvö virki í eyjunni á 11.-12. öld, sem segir okkur dulítið um tíðarandann, og eilífa hættu á árásum – sisona ef okkur skyldi langa til að leggjast í grasið á þessari fallegu eyju og tengjast fortíð hennar. Sagt er að drottningin af Kýpur hafið dvalið þar um stundarsakir á 15. öld.

Um 1400 voru menn af ætt Visconti oft á eyjunni, dunduðu sér þar við veiðar en ættin sú var valdamikil og kemur mikið við sögu Flórensborgar. Árið 1497 gaf hertoginn af Mílanó, Francesco Sforza, sá er kastalinn mikli í miðbæ Milanó ber nafn sitt af – karlinn sá gaf íbúum eyjarinnar aukin réttindi til fiskveiða og lækkaði skatta, svo vinsamlegur var hann. Og sama ár kom áðurnefnd Kýpurdrottning til dvalar – sem kemur af stað vangaveltum hvort þau hafi hist – hertoginn og Kýpurdrottning – sem væri alveg hugmynd að góðri sögu!

Monte Isola í dag

Á hverju ætli eyjabúar lifi? Jú, fiskveiðum og ólífurækt svo þar má fá góðar ólífuolíur. Og sjálfsagt lifa margir á þjónustu við túrista, því það má finna veitingastaði, gististaði og litlar búðir í stærri bæjunum. Nálægðin við vatnið hefur kennt fólkinu sitt. Fyrrum  lifðu íbúar eyjarinnar af bátasmíði og gerð veiðineta og merki þess má sjá ennþá þegar farið er um þorpin. 

Í túristabókum er mælt með að prófa einhvern af þeim fiskréttum sem eru í boði á veitingastöðum eyjarinnar.

Lesa má um ferðina okkar til Iseo hér: https://eilifdarsol.is/ferdirnar-okkar/afsloppun-og-sveitaro-vid-iseo-vatn/

Isola del Garda

Isola del Garda er stærsta eyjan í Gardavatni og er í einkaeigu hinnar auðugu Cavazzi fjölskyldu. Heilagir menn eins og Frans frá Assisi sem og fræga ítalska skáldið Dante Alighieri koma við sögu eyjarinnar en fyrstu byggingar þar voru klaustur.

Eyjan er úr kalksteini, um 1100 metrar að lengd, mest 160 metrar á breidd og liggur í 220 metra fjarlægð frá strönd Gardavatnsins. Þar var fyrrum landfastur tangi eða höfði en hluti hans sökk svo eyjan stóð eftir að loknum miklum náttúruhamförum. Á 15. öld var þar mikilvæg kirkjumiðstöð helguð hugleiðslu en í tímans rás breyttist eignarhald hennar títt á milli yfirvalda og ríkra ætta þar til hún varð eign Cavazza fjölskyldunnar.

Lystihöll og lystigarður – hversu rómantískt

Á síðmiðöldum var byggður þéttur veggur með strönd eyjarinnar til að verja hana ágangi manna og öldugangi vatns og eyjan framræst eins og unnt var. Síðan var fluttur frjósamur jarðvegur út á eyjuna, garðar hannaðir og trjágróðri plantað. Í dag er þar undursamlega fallegur gróður, með litfögrum rósum og blómum og ýmsum trjátegundum.

Töfrar eyjarinnar tengjast legunni í vatninu, fögrum gróðri umhverfis höllina og ekki síst höllinni sjálfri. Hún var byggð snemma á 20. öld í síðgotneskum feneyskum stíl. Í heimsókn til eyjarinnar er gengið um garðinn innan um framandi tré eins og kýprusvið og á flötinni við vatnið er ávaxtagarður þar sem við sjáum kannski kíví-, sítrónu-, granatepla- og appelsínutré. Þarna er hægt að rifja upp draumóra sína sem barn hvernig það er að vera prinsessa í höll umlukt fallegum gróðri en ekki bara í hugarheimi – heldur í raun. Í eyjunni fara stundum fram giftingar og varla hægt að hugsa sér fegurri eða rómantískari stað en þennan.

Sigling til Isola del Garda

Hægt er að óska eftir að fara í heimsókn til Isola del Garda meðan á jógaferðum til Gardavatnsins stendur. Ferðin tekur hálfan dag, innifalin er leiðsögn um garðana með fræðslu um sögu eyjarinnar og gengið er að hluta inn í lystihöllina þar sem veittur er drykkur.

Næsta jógaferð til Garda verður 7.-14. september, jóga og sjálfsrækt með Sigríði Huldu Jónsdóttur og Guðrúnu Ingibjörgu Hálfdanardóttur. Hér geturðu lesið um þá ferð:

https://eilifdarsol.is/ferdirnar-okkar/joga-og-sjalfsraekt-gardavatn/

Skráning: gudrun@eilifdarsol.is

<h4>Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir</h4>

Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir

Leiðsögumaður og jógakennari

30. Jul, 2024