Jóga í lífinu

„Pot“ – Rumi – Eyvindarholtsþrjóska

Hér í þessum pistlum mínum reyni ég að setja í orð lýsingar á því sem gerist þegar fetað er inn á andlegu leiðina. Í mínu tilviki hefur sú leið skýrst með iðkun jóga og hugleiðslu og fært mér aukna meðvitund um umhverfi, aðra og einnig um sjálfa mig á svo margan hátt; þar á meðal minn innri heim. Það er eins og nýjar fínlegar víddir opnist, er það kannski leiðin sem fetuð er til að komast gegnum sálarþelið?

Hef verið að hugsa um það sem er kallað á ensku synchronicity og google velur að þýða sem samstillingu. Þá er eins og komi héðan og þaðan, aftur og aftur, áminning um eitthvað eða þá að hlutir raða sér saman í röð sem er svo einkar þægileg þannig að allt gengur upp. Stundum er tilfinningin sem einhver sé jafnvel að pota í mann og benda á sama hlut eða fyrirbæri. Í bókinni Alkemistanum eftir Paulo Coelho gengur minnið út alla bókina á að Alheimur sé með samsæri um að láta þá hluti ganga upp sem við þráum heitast og af öllu hjarta.

Dæmið sem ég ætla að draga upp hér gerist á tæplega tveggja ára tíma. Þegar ég ferðaðist í fyrsta sinn til Tyrklands las ég ferðahandbók um landið og þar var meðal annars sagt frá spekingnum Rumi; ég þekkti ekki til hans en kannaðist við nafnið því ég mundi eftir gullkornum sem hann er höfundur að; tilvitnunum í hann sem stundum renna yfir síðu fésbókarinnar í bland við annað þar. Rumi var fæddur árið 1207 í Persíu en bjó stóran hluta ævi sinnar í borginni Konya í Tyrklandi og andaðist þar. Ekki tókst mér að komast þangað en þessi fyrsta Tyrklandsferð opnaði augu mín fyrir honum.

Í annarri Tyrklandsferð, rúmu hálfu ári seinna, dvaldi ég nokkra daga í Istanbul, sem er yndisleg borg og kraumar af lífi þar sem gamalt og nýtt blandast í skemmtilega iðandi mannlífi. Fyrsta kvöldið settist ég á kaffihús og fékk mér te að hætti Tyrkja; þar voru tónlistarmenn á sviði og einn stóð til hliðar klæddur pilsi og með höfuðfat sem líktist meira blómapotti en húfu; hann minnti mig á gamla velkta barnabók frá bernsku minni með svarthvítum teikningum. Tónlistin hófst og ég ákvað að fanga hana í nýja tæknilega símann minn, stóð upp og nálgaðist sviðið og þá byrjar pilsklæddi maðurinn að hringsnúast ….

Komst svo að því að þessi dans er kallaður dervish; næstu daga tók ég eftir dervish styttum í túristabúðum og þegar ég leitaði fanga á miðum internetsins kom þetta í ljós: Whirling dervishes perform a dance called the sema. It is a religious dance performed to express emotion and achieve the wisdom and love of God. It originated in Turkey, in the Islamic sect of Sufism, which was founded by Mevlana Jalaluddin Rumi.

Rumi var sumsé súfisti og hringdans pilsklædda mannsins honum tengdur.

Næsta „pot“ kom nokkrum vikum seinna; þá var ég á rölti í Kaupmannahöfn og gekk fram á litla búð sem hét Sálin. Skoðaði í hillur, þar voru bækur í röðum um alls kyns efni af andlegum toga; allt í einu stöðvuðust augu mín við eina bók og hjartað tók kipp – í algerlega bókstaflegri merkingu – Rumi, Love Poems. Ég hélt á bókinni, opnaði hana og las eitt ljóð og ekki varð út gengið án þess að kaupa hana.

Hér áður en lengra er haldið þarf ég að skjóta inn smá skýringu. Gangan eftir hinni andlegu leið er ekki alltaf bein, breið og björt… Það koma inn á milli upp þröskuldar og andstaða – ég þekki það til dæmis í jógakennaranámi að hafa stungið klaufum í jörð gegn ýmsu sem haldið er fram í fræðunum; já svo að ættarfylgjan Eyvindarholtsþrjóskan hefur rankað við sér! (Eyvindarholtsþrjóskan er raunar oft ágæt því henni má breyta í seiglu …) Þetta hefur mest tengst köflum sem mér hafa þótt loga af karlrembu. Eða hvað með þetta, sem kemur fyrir æ ofan í æ, að brúðurin skuli heil og trygg fylgja sínum brúðguma? Þetta hefur nú ekkert smá pirrað mig, þessi framsetning – að konur skuli fylgja mönnum sínum út yfir allt og allt það … en af hverju ekki öfugt?!

Nú jæja, heim komin úr bókabúð og í ró og næði gluggaði ég í bókina og sem ég las áfram opnaðist allt í einu nýr skilningur – ég skildi allt í einu – eins og með nýrri vídd varð skilningurinn annar:

Okkar æðsti kærleikur er að elska eigin sál. Rétt sisona eins og brúður gefst brúðguma sínum heil og sönn, þannig er okkar æðsti kærleikur að elska eign sál.

Það skiptir ekki máli hvort við erum karlar eða konur.

Það er einhver mikill tærleiki í ljóðum og prósum þessa manns. Á þessari stundu hugsaði ég um þennan tæra sannleika Rumis, sem fyrir mér var svo skír og fagur að tár fóru að renna. Fannst ég umvafin eins og gylltu ljósi; bað þess að ég mætti vera áfram í þessu opna hjarta, þessum alltumvefjandi kærleika. Vildi vakna á nýjum morgni, laus frá gömlu vanamynstrunum sem skella svo oft hjarta mínu aftur.

Slíkur er máttur orðsins – ljóð samin á 13. öld megnuðu að opna hjartagáttir miðaldra konu á 21. öld! 

 Hvað ætli leiði svo af þessum potum?  – Verða þau fleiri?