Jóga í lífinu

Konan sem tókst á við ekki-skrifa-drekann ….

Það er einsog ég sé í sífelldum slag við sjálfa mig. Innra með mér búi dreki sem spúi svörtu, kannski svartri þoku sem blindar mig og segir að ég eigi ekki að gera þetta eða hitt – sérstaklega hvað varðar að skrifa … alltaf inn á milli held ég að mér sé að takast að sigra þennan dreka en það er eins og hann sigri mig alltaf og ég leggst í dvala, skrifdvala.

Konan sem barðist við ekki-skrifa-drekann ….

Taki ég á mig rögg og spyrji hvers vegna hann sé þarna – hverju svarar hann?

Í dimmri þoku innra með mér hringar hann sig saman, slær til halanum og þeytir upp þessari svörtu þoku. Opnar af og til eitt auga og lítur á mig. Á ég að klappa honum? Ég labba til hans, fikra mig nær, hann sér mig og fnæsir, en ég færi mig nær samt, snerti aðeins halann á honum, kaldur hali undir heitri hendi minni, hann opnar aftur augað sitt og er eins og smá hissa, lyftir höfðinu, og horfir til mín tveim augum, fnæsir ekki lengur, horfir bara, ég strýk áfram hendi minni eftir halanum og svo með hlið hans, finn að ég tengist honum, þessum dreka, sé að augnatillit hans verður jafnvel vingjarnlegt, og breytist í að verða kærleiksríkt – eða hvað er að gerast? Ég halla mér að drekanum, finn hjarta hans slá og mitt hjarta slær – það er hrætt en þetta er samt hugrakkt hjarta sem slær í mér.  Hann færir sig örlítið til eins og hann sé að bjóða mér að setjast á bak sér, ég hika, en ákveð að treysta og í hugrekki míns hrædda hjarta klifra ég upp á bak hans, hann er ekki eins kaldur viðkomu og fyrst, eins og hann sé að volgna, hann rís varlega á afturfætur – einsog hann sé að passa að ég detti ekki af?, rís svo upp á framfætur og stendur smá stund með mig á baki sér. Gengur svo rólega af stað, mér tekst að halda nokkurn veginn jafnvægi á baki hans og það eru stórar skelplötur sem standa út úr hryggnum sem ég get náð haldi á – það eru jú engir taumar á þessum dreka, hugsa með mér að nú skulum við fara út – við erum inni í Fjósi, hann gengur hægt út, það er morgunn, sól að rísa, og allt í einu fer hann að teygja úr sér, og þá skreppa út vængir undir skelplötunum! Vá hugsa ég – flugferð bíður mín. Og samstundis fer hann á loft, ég sé Seljalandið ofan frá, það verður minna og minna, flýg yfir heiðar, fjöll og fossa í kring . Sé Vestmannaeyjar syndandi í sjó. Átta mig á að drekinn er með tauma, taumarnir eru hugsanir mínar, ég stýri mínum dreka, þarf enga tauma úr leðri, er með hugsanatauma. Halla mér fram á heitan búk drekans míns, full af kærleika og gleði.