Jóga í lífinu

Hænur og jóga

Það kemur stundum í huga minn bernskuminning – og skýtur upp kolli nú aftur þegar ég hugleiði lífið og hin og þessi atvik eða stundir og stundum kemst ég að því að svo margt í þessu lífi er „jóga“.

Eitt af mínum fyrstu skyldustörfum á sveitabænum forðum daga var að fóðra hænurnar. Ég hafði smá ímugust á hænsnunum og það var sennilega vegna þess að lyktin í hænsnakofanum var ekki góð – mér fannst hún eiginlega alveg hryllileg!

Ég var sennilega ekki há í loftinu þegar hænsnafóðrun varð mitt skylduverk. Það var ekki einungis að lyktin í hænsnakofanu væri vond heldur lyktaði hænsnamaturinn líka hroðalega. Hann innihélt yfirleitt matarafganga sólarhringsins á mjög fjölmennu sveitarheimili. Samsetning gat verið rabarbaragrautur, hafragrautur, kartöfluflus og guð má vita hvað…

Þetta var leiðinlegt verk. Mér fannst skemmtilegra að gefa kálfum og lömbum. Kannski vegna þess að þar var ekki svona andstyggileg lykt?

En einn daginn fann ég leið til að gera þetta andstyggðarskylduverk þolanlegt. Hrærði hænsnamatnum þá saman í huggulega blöndu – þynnta með vatni og íbætta með fóðurkorni. Opnaði svo hurðina að skrambans illa lyktandi kofanum, hvar langur og mjór fóðurdallur hænsnanna var á miðju gólfi; skammtaði þar veislugjörninginn og veislugestirnir umbreyttust í huga mínum í hvítklæddar frúr sem röðuðu sér að góðgjörðunum. Til að setja punktinn yfir i-ið náði ég í smá viðbót af fóðurkorni og stráði yfir matinn – svona eins og sykri væri stráð yfir skyr. Sem kætti hvítklæddu frúrnar að sjálfsögðu.

Harla glöð tíndi ég eggin upp úr varpkössum og raðaði varlega í eggjafötuna. Leit yfir samkvæmið og held jafnvel að lyktin hafi verið horfin? Þótti hænsnafóðrun skemmtileg upp frá þessu …

En hvað hefur þetta með jóga að gera?

Jú, með jóga lærir maður meðal annars að dvelja í sér;  dvelja í stund; dvelja í stað; dvelja í verki.

Það kunni ég þarna þótt ekki hafi ég verið mjög há í loftinu

og aldrei farið í jógatíma.

Hálfdan og Sigríður, Sigríður Hrund og Guðrún Ingibjörg við Stóra-Dalskirkju.
Hálfdan og Sigríður, Sigríður Hrund og Guðrún Ingibjörg við vígslu Stóra-Dalskirkju. Árið 1969 – þá var hænsnafóðrun mitt jóga 🙂