Jóga í lífinuKundalini jóga

Fröken Einvera

Þegar við skoðum eigið lífshlaup, sem flestir gera af og til á sinni ævi, sjáum við stundum þræði sem vefjast um líf okkar. Eitthvað sem fylgir okkur og kannski einkennir okkur, oft án þess að við séum nokkuð að spá í það. Eitt af því sem jógaiðkun gefur er gáfan að skoða okkur sjálf eins og utanfrá; við getum orðið okkar eigin vitni og fáum þá nýjan skilning á okkur sjálfum og jafnvel á óræðum sviðum.
Einn af þeim þráðum sem hafa undið sér leið um líf mitt er einvera; ég man eftir að hafa hatað hana á stundum en smátt og smátt hefur hún vanist sisona og á köflum orðið bærileg. En það er eins og það hafi verið einhver tilhneyging eða gamall vani í mínu fari samt að amast við henni.


Ók úr Reykjavík nýlega til að fara í jarðarför úti á landi; þetta var fallegur dagur, stillt veður og fallegt að keyra. Sem ég ók ein austur og slökkti á síbylju útvarpsins tóku hugsanir að flæða og ég fór að velta fyrir mér einverunni – hugsanaflæðið sem kom leiddi mig til þeirrar niðurstöðu að kannski sé hún bara allt í lagi; ég skuli kannski bara vingast við hana – og kannski setja það í ljóðrænan búning?

takk
fyrir að bjóða mér nærveru þína
hef forðast hana
en samt verið í þínu húsi
eins og ókunnug kona í kaffiboði
fram undir þetta

fyrirgefðu mér
að ég hafi ekki áður
móttekið með opnu hjarta
vináttu
nánd
umhyggju
tryggð þína …
kæra fröken Einvera


Hugsaði margt fleira sem ég ók yfir heiðina, eins og um ballettsýninguna sem ég sá nýlega í Hörpunni, hugsaði um hve töfrandi hún var og alveg hreint yndisfögur á köflum. Þessi tærleiki í verkinu kallaðist á við fegurðina út um bílgluggann þar sem ég ók yfir Hellisheiðina. Já gerði mig meyra í hjartanu, einsamla í fegurð vetrardagsins í hrímþaktri veröld undir bláum himni sem minnti kannski á leikmynd Svanavatnsins – fékk mig til að hugsa um af hverju þessi ballett töfrar fólk endalaust – hvað er það við verkið? Spurði mig – af hverju varð ég svo hugfangin?


Sagan er, eins og mörg ævintýri, um prins og prinsessu. Prinsinn Siegfried fer á veiðar og sér undurfagran svan, og sem hann setur sig í stellingar við að skjóta breytist fuglinn í hina töfrandi fögru Odette. Hún segir honum frá álögum sínum, að hún sé prinsessa sem illur galdramaður hafi breytt í svan og sama sé með hjarðmeyjar hennar. Að degi til séu þær í svanaham og syndi á vatni sem myndast hafi úr tárum hennar en að næturlagi séu þær í mannsmynd. Álögum hennar verði einungis aflétt ef prins heitir henni eilífri ást og tryggð. Prinsinn verður ástfanginn af Odette, en hún varar hann við og segir að afneiti hann henni verði hún svanur það sem eftir er ævinnar.
Sigried fer aftur til hallar sinnar, þarf nefnilega að mæta á dansiball því hann á afmæli og það er ætlast til að þar festi hann sér konu úr hópi aðalsmeyja. Illi galdramaðurinn er enn á stjái og leggur álög á prinsinn svo hann biður í ógáti um hönd annarrar konu. Við það hótar Odette að drepa sig og kastar sér í vatnið. Yfirkominn af sorg stekkur prinsinn á eftir henni og þar sameinast elskendurnir að lokum eftir dauðann.


Hvað var það sem heillaði mig í þessari sýningu?
Undurfalleg tónlistin, ballettkjólarnir, sviðið, dansinn …?
Eða var það prinsessan í álögum? Veit ég einhvers staðar að hún er eins og sálin innra með okkur? Sem situr í álögum í líkama okkar, oftast án sambands við okkur, en stundum verða eins og „glit“ eða upplifanir þar sem er eins og sálin vakni og það verður til ástand, oft töfrum hlaðið, oft undurfagurt. Ástand þar sem við verðum ein hrein vitund, sálin, við og allt hitt.
Var þetta eitt af þessum glitum?
Hvað um það – alltént gaf Fröken Einvera mér skemmtilegan félagsskap í þessu spjalli! Og kannski reynast ýmis dýrmætin í nærveru hennar?