Jóga í lífinu

Lífið í jóga – jóga í lífinu

Þegar ég var óharðnaður unglingur í Menntaskólanum að Laugarvatni fengum við heimsókn – það var kona klædd í appelsínugul klæði ef ég man rétt, líklega indversk að uppruna – við fengum kynningu um jóga og persónulega möntru í viðtali – sem átti að vera okkar leyndarmál. Ég að sjálfsögðu hélt minni möntru leyndri – og man hana ennþá  – en strákarnir í hópnum blöðruðu sín á milli og sögðust allir hafa fengið sömu möntruna!

Þessi minning kemur stundum upp í huga minn núna og þá velti ég fyrir mér hvort þessi heimsókn appelsínuguluklæddu konunnar hafi verið fræ sem tók fjöldamörg ár að spíra. Skaut rótum hægt og rólega og skaut upp einum anga árið sem ég gekk með miðsoninn minn og ákvað að fara í meðgöngujóga hjá henni Sigfríði í Hátúni. Það var yndislegt og fæðingin enn yndislegri – ég beitti jógaöndun og þurfti hvorki verkjalyf né hláturgas.

Fram liðu árin, ég fór á hatha jóganámskeið og stundaði það með hléum á nokkrum stöðum. En varð aldrei alger fastagestur neins staðar. Svo eins og gengur í lífinu fetar maður hæðir og lægðir; og við að feta mig eina djúpa og krappa lægð rakst ég á tilboð á Hópkaupum um eitthvert jóga sem nefnt var kundalini. Ég hugsaði með mér að ég hefði örugglega gott af jóga á þessum tímapunkti, velti örlítið fyrir mér hvers konar jóga þetta kundalini væri – en ákvað svo bara að skella mér á tilboðið.

Mætti í jógastöðina Ljósheima og um leið og ég gekk inn í stöðina fann ég að þarna var einhver ný stemmning, nýr andi … gekk inn í fallegan bjartan sal með þakgluggum; falleg framandi tónlist hljómaði og svo tók ég eftir að jógakennarinn var algerlega hvítklædd með hvítan klút vafinn um höfuðið – kannski hugsaði ég með mér þá að hún væri eins og fígúra … en ég demdi mér í fyrsta tímann. Og varð fangin, því þarna opnaðist leið til hins innra …

Sem er held ég leiðin sem við þráum öll. Og við förum misjafnar leiðir. Alkemistinn reið á úlfalda langar leiðir til að komast að því að leitin bar hann aftur heim!

Hópkaupstilboðið borgaði sig algerlega – ég fór í jógakennaranám í framhaldi af að kynnast kundalini jóga – ætlaði þar bara að dýpka mig í fræðunum fyrir sjálfa mig en stefndi ekki að kennslu – ég sem hafði alltaf verið stirð og jafnvel antisportisti 🙂 En hér er ég nú – orðin fígúran hvítklædda með klút á höfðinu þegar ég kenni jóga.