Um okkur

Eilífðarsól ehf. sérhæfir sig í skipulagningu jógaferða og jóganámskeiða. Stofnandi fyrirtækisins er Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir sem féll fyrir kundalini jóga vorið 2013; fór þá í jógakennaranám því fræðin heilluðu – sem leiddi til að hún fór að kenna jóga. Sem svo leiddi til að hún ákvað að setja saman í einn pakka það sem mesta ástríðu kveikir: jóga, hugleiðslu og ferðalög.

Guðrún hefur starfað í hlutastarfi sem ökuleiðsögumaður frá árinu 2011 og farið í allmargar hringferðir með erlenda ferðamenn. Í slíkum ferðum vaknaði hugmyndin um að blanda jóga inn í ferðalög en ferðir sem eru í boði innan Íslands til ferðalanga byggjast flestar á mikilli keyrslu og yfirferð og fáum möguleikum til að njóta og dvelja í ró. Upp kom löngun til að bjóða ferðir sem fela í sér að njóta, dvelja í andartakinu og veita ytri og innri gæði. Hver ferðalangur er gimsteinn, sem nýtur þess að vera einn; en nýtur heildar líka. Sérstök hóptengsl myndast með jógaiðkun sem skilar sér í að þátttakendur njóta sín bæði sem hluti hóps og einnig sem einstaklingar innan hans.

Guðrún hefur lokið tveim námskeiðum á framhaldsstigi fyrir jógakennara og tveim námskeiðum í gongspilun. Hún hefur kennt á byrjendanámskeiðum og í opnum tímum hjá jógastöðinni Andartaki. Einnig á byrjendanámskeiði ásamt Estrid Þorvaldsdóttur í nuddstöðinni Chakra í Kópavogi – og þar verða áfram opnir tímar frá 25. september 2017.

Jógað sem við kennum er kundalini jóga að forskrift Yogi Bhajan en hann var indverskur jógameistari sem braut hefðir og kynnti þessa tegund jóga fyrir vesturlandabúum á sjöunda áratug síðustu aldar. Jóga er talið hafa verið ástundað í mörg þúsund ár – fyrstu form af jóga og hugleiðslu finnast í heimildum 40.000 ára gamalla samfélaga í Tíbet. Allt jóga miðar að því að efla orku mannsins og vitund sem er í raun að virkja kundaliniorkuna.

Jóga er myndað af orðinu “yoke” – á íslensku ok; sem tengir saman t.d. uxa og dráttarplóg. Jóga þýðir því tenging – það er hugar, sálar og líkama. Það hefur þróast í ýmsar áttir og til urðu 22 leiðir þar sem misjafnar áherslur eru á ýmsa grunnþætti þess. Yogi Bhajan líkti hinum ólíku leiðum jóga við ótalmarga fleti á sama demanti en hann taldi kundalini jóga vera demantinn í heild. Hann sagði kundalini jóga vera fljótvirkast og að iðkun eftir ýmsum öðrum leiðum jóga væri mun seinvirkari til að ná sama marki. Í kundalini jóga væru valdar allar áhrifaríkustu og fljótvirkustu leiðir til að virkja kundaliniorkuna og hreinsa undirmeðvitund einstaklingsins svo unnt væri að koma á sambandi við innra sjálf, líkama, huga og sál. Sem er hin sanna tenging, eða jóga.